Árshátíð Húnaskóla

Árshátíð Húnaskóla var haldin fimmtudaginn 29. febrúar sl. í Félagsheimilinu á Blönduósi. 

Má segja að andi Thorbjörn Egner hafi svifið yfir vötnum en nemendur 7. bekkjar sýndu leikritið Kardimommubæinn í leikstjórn Jóhönnu Stellu Jóhannsdóttur, umsjónarkennara, og nemendur í 8.-10. bekk sýndu Dýrin í Hálsaskógi í leikstjórn Gunnars Sturlu Hervarssonar sem kom núna til okkar í annað sinn. 

Hefðbundið skólastarf var lagt til hliðar í tvær vikur á meðan æfingar stóðu yfir og uppskeran var mjög góð. Nutu báðir hópar sín vel á sviðinu eftir stífar æfingar og litrík og falleg leikmynd, búningar og förðun studdu vel við leikarana. 

Árshátíðargestir nutu svo glæsilegs kökuhlaðborðs í danssal, tveggja söngatriða og nokkrir heppnir fengu líka happdrættisvinninga áður en svolítið ball fyrir unglingana hófst og stóð til kl. 23.

Uppbrotsvikurnar tvær var ritnefnd skólablaðsins einnig að störfum og kom 2. tölublað skólablaðs Húnaskóla, Vit, út á árshátíðardaginn. Blaðið er fullt af myndum og frásögnum af skólastarfinu, vel stutt af fjölmörgum auglýsingum sem safnað var samhliða ritstörfum. Hægt er að nálgast blaðið með því að smella á þessa slóð: https://www.canva.com/design/DAF9OVMmSoo/mA8TsrQLryC0tqoBcY9v8w/view?utm_content=DAF9OVMmSoo&utm_campaign=designshare&utm_medium=link&utm_source=viewer&fbclid=IwAR3TEnU8e4D8p65PaeGBhFe3xlcsbR02zbvlja-3wJzt199lmVxJMtsPt3A 

Sunnudaginn 3. mars var svo aukasýning á báðum leikritunum og var hún vel sótt af íbúum sveitarfélagsins, ungum sem öldnum.

Vilja nemendur þakka öllum þeim sem mættu, bæði á árshátíðina sjálfa og svo einnig á aukasýninguna, kærlega fyrir komuna. Jafnframt vilja þeir þakka öllum þeim sem studdu þá með kaupum á auglýsingum í skólablaðið. Kærar þakkir.