Skólalóð

HJÓL og almennar reglur á skólalóð

Við hvetjum til þess að nemendur komi gangandi og hjólandi í skólann. Ég hvet foreldra til að rifja upp umferðarreglurnar með börnum sínum og fylgja þeim yngstu nokkrum sinnum í skólann. Það er aldrei of oft lögð áhersla á hjálmanotkun og vil ég biðja ykkur um að hjálpa okkur við að sjá til þess að enginn komi hjálmlaus á hjóli í skólann (ég tel þetta reyndar vera almennt í mjög góðum málum hér hjá okkur). Það má ekki vera á hjólunum á skólalóðinni á skólatíma nema á sérstökum dögum og er það auglýst fyrirfram í hvert sinn. 

HJÓLADAGAR

Frá og með föstudeginum 25 ágúst verður leyfilegt að hjóla á merktri leið í kringum körfuboltavöllinn í hádegishléi og á Skóladagheimilinu milli 13:15 - 14:00. Einungis venjuleg órafknúin reiðhjól. Hæg er að geyma hjól fyrir nemendur sem eru að koma með skólabílum. Þá geta foreldrar komið hjólunum til okkar og börnin sækja þau í kjallarann á nýbyggingunni og verða að setja þau í kjallarann fyrir skólalok (fyrir kl. 16:00). Starfsfólk aðstoðar við það en getur ekki borið ábyrgð á að setja þau inn. því miður ekki hægt að vera í körfubolta á meðan verið er að hjóla. Við bendum á að það er körfuboltaspjald á suðurenda Íþróttamiðstöðvar og því hægt að vera þar í staðin á meðan.

ALMENNT SKIPULAG Á SKÓLALÓÐ

Þegar best lætur þá eru um 180 einstaklingar á skólalóðinni og því er eins gott að þar séu reglur og allir meðvitaðir um þær svo komist verði hjá mörgum slysum og allir geti nýtt sér lóðina stresslaust. Skólaliðar og stuðningsfulltrúar eru með eftirlit í frímínútum og í hádegishléi og starfsfólk Skóladagheimilis er með eftirlit á sínum hóp eftir hádegi. Ef kennarar eru að fara út með sína hópa þá bera þeir ábyrgð á þeim og verða að fylgja þeim eftir og sjá til þess að farið sé eftir settum reglum.

Reglur á skólalóð gilda frá því fyrir kl. 8:00 og til kl. 16:00.

Hjólagrindur eru á milli Íþróttamiðstöðvar og skóla og fyrir neðan Nýja skóla. Þar á að geyma ÖLL hjól. Fara vel yfir með nemendum að setja hjólin í grindurnar. (hlaupahjól mega þó vera við neðri inngang í Nýja skóla ef þau eru ekki fyrir inngangi).

Á ofangreindum tíma er ekki leyfilegt að hjóla á skólalóðinni nema þegar starfsmenn skóla gefa sérstakt leyfi. Raftæki; rafknúin hlaupahjól og rafskutlur eru þó ALDREI leyfð á skólalóð á þessum tíma.

Á skóladagheimilimilli verður merkt hjólaleið á og í kringum körfuboltavöllinn þegar leyfi er gefið. Og er þá leyfilegt að hjóla þar á þeim tíma en þá er því miður ekki hægt að vera í körfubolta á meðan. Við bendum á að það er körfuboltaspjald á suðurenda Íþróttamiðstöðvar og því hægt að vera þar í staðin á meðan.

Hlaupahjól (án rafmagns), hjólabretti og línuskautar eru leyfð á RAMPINUM (viðkomandi verða þá að vera með hjálm) en þá geta aðrir ekki verið að leika sér (hlaupa og sitja) á því svæði nema þeir sem eru á þessum tækjum (hjól og BMX-hjól eru ALDREI leyfð á þessu svæði milli kl. 8:00 - 16:00).

Kastalinn: ekki klifra upp rennibrautina eða stífla hana, ekki vera með dót/smáleikföng í kastalanum.

Á torgi milli Gamla- og Nýja skóla er einungis í boði að vera með smáleikföng (en ekki körfu- eða fótbolta)

Í boði eru í frímínútum ýmis smáleikföng; boltar, snú snú- bönd, sippubönd, húllahringir, stultur, bílar, teygjutvist, boccia, kubbur o.fl. Það skal tekið fram að snú snú-bönd og sippubönd eru einungis til að sippa með en ekki til annarra leikja.

Fótbolti: Við erum í fótbolta á sparkvellinum og á pönnuvellinum (lítill átthyrndur sparkvöllur) Á öðrum stöðum erum við EKKI með fótbolta og því miður er ekki hægt að leika sér með bolta á ærslabelgnum því það eru oftast svo margir á belgnum í einu að það skapast mikil hætta af boltum (og því miður hefur það sýnt sig að þeir sem hafa verið með bolta þar hafa átt mjög erfitt með að sýna tillitssemi). Undanþága er þó veitt ef mið- eða unglingastig er með fyrirfram skipulagðan tíma með litlum hóp OG BIÐUR UM LEYFI.

Körfubolti: Á skólalóðinni eru í boði lítill körfuboltavöllur fyrir framan skólann og ein karfa við suð-austur enda Íþróttamiðstöðvar.

Tímaplan er fyrir bæði ærslabelginn og sparkvöllinn á skólatíma (þau hanga uppi nálægt inngöngum og eru hér með í viðhengjum) og þarf að fara eftir því plani. (Við tökum við ábendingum og lagfærum plönin ef þarf og hægt er).