Eldvarnarfræðsla í 3.bekk Húnaskóla

Nemendur í 3. bekk Húnaskóla fengu góða heimsókn þegar Ingvar slökkviliðsstjóri frá slökkviliðinu kom og fræddi börnin um eldvarnir á heimilum.
 
Heimsóknin er hluti af Eldvarnaátaki Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sem fer fram um allt land ár hvert. Markmið átaksins er að auka vitund barna og fjölskyldna þeirra um mikilvægi eldvarna og öryggis.
Nemendur fengu með sér heim veglega bók um Orra óstöðvandi og Möggu Messí. Í bókinni læra börnin og aðrir eldri lesendur um reykskynjara, flóttaleiðir og eldvarnir í gegnum ævintýri vinanna. Nemendur hafa jafnframt tækifæri til að taka þátt í Eldvarnagetrauninni, þar sem heppnir þátttakendur geta unnið glæsileg verðlaun sem afhent eru á 112-deginum, 11. febrúar.
Við þökkum Ingvari kærlega fyrir fræðandi og skemmtilega heimsókn og fyrir mikilvægt forvarnastarf sem skilar sannanlega góðum árangri.