Valgreinadagur í Húnaskóla

Valgreinadagur í Húnaskóla

Fjölmennur og vel heppnaður valgreinadagur var haldinn í Húnaskóla þann 9. október síðastliðinn. Um hundrað nemendur úr 8., 9. og 10. bekk Húnaskóla, Höfðaskóla og Grunnskóla Húnaþings vestra komu saman til að kynnast fjölbreyttu úrvali áhugaverðra smiðja.

Dagskráin hófst klukkan tvö og stóð til átta um kvöldið. Skipulagið fólst í þremur lotum þar sem tíu smiðjur voru í boði í hverri lotu. Nemendur fengu að velja sér þrjár smiðjur sem þeim fannst áhugaverðastar til að taka þátt í.

Úrvalið var afar fjölbreytt og höfðaði til ólíkra áhugasviða ungmennanna. Smiðjur í boði voru heimsókn í Textíllabið þar sem unnið var í þæfingarvél og útsaumsvél, þrjár íþróttasmiðjur; blak  sundblak og skák, með ýmsum æfingum, leikjum, og keppni. Einnig var útieldunarferð í Fagrahvamm þar sem eldað var yfir opnum eldi, náttúrufræðismiðja fyrir þá sem höfðu áhuga á sprengjum, litum og furðulegum tilraunum og kleinubakstur sem reyndist vera vinsælasta smiðjan enda hver elskar ekki kleinur með ískaldri mjólk. Auk þessa voru skapandi smiðjur á borð við hár og förðun þar sem nemendur lærðu fléttur, greiðslur og húðumhirðu, myndmenntasmiðja með blandaðar myndlistaraðferðir og skála- og kertastjakagerð úr plexígleri.

Dagurinn endað svo á pitsuveislu á veitingastaðnum Teni þar sem hver og einn gat borðað eins mikið og hann gat í sig látið.

Dagurinn gekk mjög vel fyrir sig og nemendur sýndu mikinn áhuga á öllum smiðjunum. Þetta var frábært tækifæri fyrir ungmennin í Húnavatnssýslum að hittast og prófa eitthvað nýtt.