Íþróttadagur Húnaskóla

Íþróttadagur Húnaskóla gekk vel

Húnaskóli hélt árlegan íþróttadag sinn þann 25. september í tengslum við heilsudaga Húnabyggðar, sem fóru fram á tímabilinu 23. til 29. september. Dagurinn var fullur af hreyfingu, gleði og spennu þar sem allir nemendur og starfsfólk tóku þátt í fjölbreyttum íþróttaatriðum.

Dagurinn hófst klukkan 8:30 með Ólympíuhlaupi ÍSÍ, þar sem nemendur og starfsfólk skólans völdu á milli 2,5 eða 5 kílómetra hluapa-/göngu-vegalengda um allan bæinn. Eftir hlaupið var boðið upp á morgunmat áður en nemendur héldu áfram með dagskrána.

Frá 9:45 til 11:30 voru fjölbreyttar hreyfistöðvar í gangi í íþróttasalnum þar sem nemendur fengu að prófa sig áfram í ýmsum skemmtilegum æfingum. Allir á sínum forsendum.

Síðasti hluti dagsins var helgaður keppni. Nemendur í 5. til 10. bekk kepptu í skotbolta en yngri nemendur, í 1. til 4. bekk, tóku þátt í skemmtilegum boðhlaupum. Dagurinn endaði svo með æsispennandi blakleik milli 10. bekkjar og starfsfólks skólans, sem endaði með sanngjörnu jafntefli.

Þess má geta að í tengslum við heilsudagana hófst einnig „Göngum í skólann" verkefnið, sem hvetur nemendur til að velja virka ferðamáta til og frá skóla.

Íþróttadagurinn gekk afar vel og allir voru ánægðir með þátttökuna og stemninguna. En það er ekki allt! Fyrir þátttöku skólans í Ólympíuhlaupi ÍSÍ fékk Húnaskóli viðurkenningarskjal. Enn betra er að skólinn var einn af þremur skólum sem dregnir voru út til að hljóta 150.000 króna gjafabréf frá Altis íþróttavöruverslun í tengslum við Ólympíuhlaup ÍSÍ 2025. Þetta er ánægjuleg viðurkenning og gjafabréfið verður nýtt til að kaupa búnað fyrir skólalóðina eða íþróttasalinn, sem kemur öllum nemendum til góða.

Íþróttadagurinn var ánægjulegt innlegg í heilsudaga Húnabyggðar og sýndi að samstaða og hreyfing skapa gleði og heilsu í skólasamfélaginu! Slíkir dagar undirstrika mikilvægi hreyfingar og heilbrigðs lífsstíls fyrir börn og unglinga.