Verkefnið Göngum í skólann, sem er á vegum UMFÍ, lauk í Húnaskóla þriðja október með glæsilegri verðlaunaafhendingu. Allir nemendur og starfsfólk skólans komu saman fyrir utan skólann til að fagna árangri verkefnisins og afhenda hinn eftirsótta Gullskó.
Verkefnið vakti mikla lukku meðal nemenda og starfsfólks. Allir bekkir skólans tóku þátt og sýndu fram á frábæran árangur. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá að fimm bekkir náðu fullu húsi stiga. Sigurvegarar verkefnisins eru nemendur þriðja, fjórða, sjötta, áttunda og tíunda bekkjar, sem öll voru dugleg við að nota virkan ferðamáta á leið sinni í skólann.
Íþróttakennararnir Óli og Karol afhentu Gullskóinn við mikil fagnaðarlæti. Skórinn verður í umsjá sigurbekkjanna til skiptis yfir skólaárið og verður góð áminning um mikilvægi þess að hreyfa sig og velja umhverfisvænan ferðamáta.
Þó að verkefninu sé lokið hvetur skólinn alla nemendur og starfsfólk til að halda áfram að ganga eða hjóla í skólann. Í skammdeginu er mikilvægt að huga vel að öryggi á leið í og úr skóla. Allir ættu að vera með endurskinsmerki á útifötunum og ljós á hjólum. Einnig er nauðsynlegt að allir séu alltaf með hjálm þegar þeir eru á hjóli.
Skólinn þakkar öllum fyrir frábæra þátttöku og vonar að þessi jákvæði andi í kringum virkan ferðamáta verði áfram hluti af daglegu lífi skólasamfélagsins.



|
Við Húnabraut 2a | 540 Húnabyggð Sími: 455-4750 Netfang: hunaskoli@hunaskoli.is |
Skólinn er opinn frá |
.