Heimalestur

Heimalestur - nokkur atriði til að hafa í huga

Munið: „Komdu, við skulum...“ - frekar en „Farðu að...“

Áður en þið byrjið:

  • Þjálfið eins snemma dags og kostur er. 

  • Þjálfið ekki svangt og pirrað barn. 

  • Þjálfið á notalegum stað og í næði. 

  • Þjálfið af athygli og gerið ekkert annað á meðan. 

  • Finnið bækur sem höfða til barnanna ykkar, til dæmis um fiðrildi, geimverur, fótbolta eða annað sem vekur áhuga.

  • Skoðið bókakápur, lesið aftan á þær, myndið ykkur skoðun og veltið fyrir ykkur innihaldinu.

 

Alltaf þegar lesið er:

  • Hjálpið barninu að lesa þau orð sem reynast erfið. 

  • Gætið þess að barnið skilji öll orðin í textanum. 

  • Ræðið efni texta. 

  • Lesið á milli línanna.

  • Spáið fyrir um hvað gerist næst.

  • Hrósið fyrir það sem vel er gert og hvetjið barnið áfram. 

  • Veitið barninu tækifæri til að sýna hvað það kann. 

 

Passar bókin fyrir barnið? 
Að velja bók með fimm fingra aðferðinni

Það getur verið svekkjandi þegar barn hefur lesið bók og skilur svo ekki innihaldið? Fimm fingra aðferðin gæti hjálpað til við að meta erfiðleikastigið. Teljið 100 orð í upphafi bókarinnar og svo les barnið þau. Fyrir hvert orð sem það skilur ekki réttir það úr einum fingri.
Fjöldi fingra: 

  • 0-1 létt bók

  • 2-3 viðráðanleg bók

  • 4-5 erfið bók en viðráðanleg með aðstoð ykkar

  • 5-10 of erfið

Mikilvæg atriði sem má aldrei gleyma!

Lesið fyrir börnin
Það er afar gott veganesti ef tekist hefur að skapa með barninu það viðhorf að lestur sé áhugavert viðfangsefni sem hægt sé að hafa bæði gagn og gaman af.

Þegar lesið er fyrir barn lærir það ómeðvitað ýmislegt sem gagnast því síðar við lestrarnámið. Það lærir til dæmis að hlusta og einbeita sér á annan hátt en þegar talað er við það.

Lestur styrkir og eflir orðaforða og eykur þekkingu og reynslu, en þetta eru allt atriði sem skipta máli fyrir lestur og ekki síst lesskilning - af því að þið lesið bækur sem barnið réði ekki sjálft við. 
Þannig fá öll börn að upplifa þennan ríkulega orðaforða sem gefur þeim svo mikið.

Ekki hætta að lesa fyrir börn þó svo að þau séu farin að lesa sjálf, 

munum það að börn verða aldrei of gömul fyrir lestrarstund.


Það sem einkennir góða lesara, af veggspjaldi útg. af Menntamálastofnun

  • Þeir sem eru góðir lesarar kunna aðferðir til að skilja og vita hvenær þarf að nota þær og hvernig.

  • Þeir vakta skilninginn - stoppa og spyrja sig - hvað var ég að lesa?

  • Þeir spyrja spurninga. Við segjum stundum - hvernig myndi kennari spyrja upp úr þessum texta?

  • Þeir tengja við eigin reynslu - skíðaferð, matarboð, keppni, slys…

  • Þeir gera sér í hugarlund - sjá fyrir sér það sem er að gerast. Búa til mynd í huganum.

  • Þeir draga ályktun - lesa á milli línanna. Þetta geta byrjendur í lestri yfirleitt ekki - en fljótlega. 

  • Þeir geta fundið aðalatriði í texta.

  • Þeir aðlaga nýjar upplýsingar að fyrri. Gera sér grein fyrir að þeir hafi bætt við þekking sína.

  • Þeir lesa fimlega með áreynslulausum lestri þar sem áherslan er á innihald en ekki tæknina. 


Alls kyns leiðir til að sinna heimalestrinum

  1. Hefðbundinn heimalestur, barn les, foreldri hlustar (endurtekning eftir þörfum)
    Endurtekning er mikilvæg vegna þess að þá festast orðin betur í minni, þeim mun oftar, þeim mun betra - til að efla lesfimina. Barn sem þverneitar að lesa blaðsíðu aftur: kannski er betra að horfa framhjá endurtekningu til að láta hlutina ganga betur. Gott að hafa samband við umsjónarkennara ef þetta veldur árekstrum heima. 

  1. Endurtekinn lestur með tímatöku
    Endurtekinn lestur með tímatöku - oftast 3x (líka til 5x - en það er fyrir þolinmóða ;) )
    Hentar t.d. vel þeim sem eru búnir að ná lestrarferlinu en lesa hægt. Blaðsíðan
    er  lesin þrisvar sinnum og tíminn tekinn í hvert sinn. Barnið keppir þannig
    við sjálft sig og reynir að bæta eigin tíma við hverja endurtekningu. Þar
    sem endurtekningin er mjög mikilvægur þáttur og mörgum finnst
    endurtekning ekki spennandi, er þetta ágæt leið til að lífga upp á
    endurtekningarlesturinn.

 

  1. 3x1 mínúta - tvisvar sinnum 
    Önnur útfærsla á tímatöku, t.d. þegar tíminn er lítill (munið, það er betra að lesa oft og lítið en mikið og sjaldan) væri að lesa sama textann 3x í 1 mínútu og sjá hvað barnið nær að bæta við í hvert sinn. Þegar búið er að lesa sama textann 3x hefst önnur umferð. Þá er byrjað frá þeim stað sem barnið endaði síðasta lesturinn - og aftur lesið 3x í eina mínútu. Mikið fjör og mikil keppni við að ná lengra en síðast. Gætið þess bara að lesturinn skiljist - það má ekki lesa svo hratt á hlustandinn greinir ekki orðaskil!

 

  1. Leiðbeinandi lestur
    Foreldri/forráðamaður er fyrirmyndin og les ákveðinn texta, barnið æfir sig síðan í hljóði eða lágt og reynir að líkja eftir lestri fyrirmyndarinnar og les að lokum upphátt. 
    Þessi aðferð er góð því að hér heyra börnin gott lestrarlag með viðeigandi áherslum og notkun greinarmerkja. 

  1. Að hlusta og lesa
    Hlustun á hljóðbók/tölvu samhliða lestri er góð æfing í sjálfvirkni í lestri.
    Á vef Menntamálastofnunar www.mms.is er hægt að finna upplestur á léttlestrarbókum sem stofnunin gefur út. Þar er allt frítt. Þau börn sem hafa aðgang að Hljóðbókasafni Íslands ættu reglulega að æfa sig að hlusta.
    Mikilvægt er að þjálfa það að börnin fylgist með í bók samhliða upplestrinum. 

  1. Samlestur
    Foreldri/forráðamaður og barn lesa saman upphátt. Hraðinn verður að miðast við að barnið geti haldið í við þann fullorðna. Með þessari aðferð er reynt að „toga“ barnið áfram án þess að ofgera því. Þarna er fín lína sem gæti reynt á í byrjun.

  1. Paralestur
    Foreldri/forráðamaður og barn lesa upphátt til skiptis t.d. eina og eina setningu eða efnisgrein. Athugið að sá sem ekki les þarf að fylgjast vel með í bókinni til að geta tekið við keflinu þegar röðin kemur að viðkomandi.

  1. Gagnvirk lestrarþjálfunarforrit 
    Á vef Menntamálastofnunar www.mms.is má finna alls kyns smáforrit til að æfa lestur og ýmis atriði sem hann byggist á. 
    Dæmi um efni sem gæti hentað er:

Eldgrímur                    Leikur að íslenskum orðum                       Samhljóðar í himingeimnum 

Lestur er leikur           Smábókaskápurinn                                    Stafaplánetur

Stafaleikir Bínu            Stafaleikir Búa

Listin að lesa og skrifa - safnvefur: Hér eru margar rafbækur ef þið viljið bjóða barninu að lesa af skjá, en þeim fylgja engin verkefni eða úrvinnsla. 

  1. Bingó
    Útbúið í sameiningu bingóspjald með alls kyns útfærslum á heimalestrinum. 
    Dæmi um verkefni gætu verið að lesa:

í náttfötunum                             með húfu á höfðinu                með sólgleraugu             

undir sæng með vasaljós          undir borði                              liggjandi í sófa 

með snarl í skál                          liggjandi á gólfinu                    við kertaljós 

fyrir hundinn                               bók eftir íslenskan höfund      þýdda bók

og drekka heitt kakó                  bók sem pabbi, mamma, afi eða amma mælir með


Hugmyndirnar eru óteljandi og um að gera að láta barnið búa til bingóspjaldið með ykkur. 
Gerið ykkur svo glaðan dag þegar barnið fær bingó.

  1.  100ord.is 

Vefurinn 100 orð er mjög skemmtilegur. 
Á síðunni segir: Vefsíðan er ætluð sem kennsluefni við lestrarnám í grunnskóla og miðar að eflingu sjónræns orðaforða. Vefsíðan gengur út á lestur orða af orðalistum af mismunandi erfiðleikastigi.

Sjálfvirkur lestur orðmynda, sem mynda sjónrænan orðaforða, er forsenda lesfimi en mikilvægt er að börn nái góðum tökum á honum svo svigrúm fáist fyrir lesskilning. Algengustu nokkur hundruð orðin í íslensku mynda mjög hátt hlutfall alls ritaðs texta og því mikilvægt að geta lesið þau á sjálfvirkan hátt.