Lestrarsprettur í Húnabyggð 2023

Föstudaginn 13. október sl. hófst lestrarprettur Húnabyggðar. Markmið lestrarsprettsins voru m.a. að hafa gaman, þjálfa lestur, efla íslenskan orðaforða, auka áhuga á lestri bóka og fylla lestrartrén af laufblöðum. Trjástofnar voru settir upp bæði í matsal Húnaskóla og í Íþróttamiðstöðinni.

Fyrirkomulagið var þannig að fyrir hverja lesna bók fékk lesandinn laufblað og skrifaði á það nafnið sitt, nafn bókarinnar og gaf bókinni stjörnueinkunn frá einni stjörnu og upp í fimm stjörnur allt eftir því hvernig viðkomandi hugnaðist lesturinn. 

Nemendur og starfsfólk Húnaskóla og íbúar sveitarfélagsins stóðu sig vel við lestur þær vikur sem spretturinn stóð og lestrartrén urðu blómleg og falleg. 

Laufblöðin sem prýddu lestrartréð í matsal skólans töldust 275 þegar þau voru tekin niður. Því miður láðist okkur að taka mynd af trénu í Íþróttamiðstöðinni en það fékk einnig laufblöð eftir lestur áhugasamra lesara. 

Núna er tréð í matsalnum prýtt jólakúlum nemenda og heldur áfram að gleðja auga allra sem þangað koma.

Starfsfólk Húnaskóla óskar ykkur öllum gleðilegra jóla og þakkar fyrir ánægjulegt og gott samstarf á árinu sem er að líða.